Ár hvert er matvælum fargað úr íslenskum matvöruverslunum fyrir minnst hundruð milljónir króna. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu , sem segir að þetta megi ráða af svörum fulltrúa matvöruframleiðenda og stærstu matvöruverslananna.

„Ég velti fyrir mér hvort það væri skynsamlegt að hafa afsláttarhorn í verslunum með vörum á miklum afslætti sem eru að renna út. Þá væri hægt að selja vörurnar í stað þess að farga þeim,“ segir Eiður Gunnlaugsson, stjórnarformaður Kjarnafæðis, í samtali við Morgunblaðið. Hann segir sóun matvæla of mikla á Íslandi.

Finnur Árnason, forstjóri Haga, tekur undir að þetta skipti máli. „Ég held hins vegar að þær tölur sem eru á sveimi séu ekki sannleikanum samkvæmar. Rætt hefur verið um að matarsóunin hlaupi á tugum prósenta í verslunum. Það er ekki rétt. Þetta er lítið hlutfall. Það hleypur á nokkrum prósentum hjá okkur,“ segir hann.

Finnur segir fyrirtækið vinna að því að lágmarka sóun og það muni kynna verkefni í þá veru fljótlega. Með því verði gengið lengra í því að lækka verð á vörum sem séu að nálgast dagsetningu.