Risavaxni matvöruframleiðandinn Nestlé mun þurfa að farga núðlum að verðmæti rúmlega 6,5 milljarða króna í Indlandi eftir að þarlent matvælaeftirlit sagði varninginn vera „óöruggan og hættulegan“.

Nestlé þarf að fjarlægja Maggi núðlurnar vinsælu úr hillum indverskra verslana hið snarasta vegna ásakana frá indverska matvælaeftirlitinu. Nestlé er með 80 prósenta markaðshlutdeild á núðlumarkaðnum í Indlandi eftir að hafa komið fyrst til landsins árið 1983. Fyrirtækið heldur því fram í yfirlýsingu að núðlurnar séu öruggar og mun berjast gegn því að þær verði bannaðar.

Hins vegar mun Nestlé fjarlægja núðlurnar úr verslunum í millitíðinni og greinir BBC frá því að þeim verði fargað . Auk tekjutapsins bætist við kostnaður við að sækja núðlurnar og kostnaður við förgun o.þ.h. Er því ekki ljóst hversu mikið tjónið verður fyrir Nestlé í heild sinni.

Þann 5. júní síðastliðinn bannaði indverska matvælaeftirlitið Maggi núðlurnar frá Nestlé eftir að hafa fundið ólöglega hátt magn af blýi í sumum pökkum. Fyrirtækið sagði að um túlkunaratriði væri að ræða í indverskum matvælaöryggislögum.

Paul Bulcke, forstjóri Nestlé, lofaði því að Maggi núðlurnar yrðu komnar aftur í hillur verslanna fljótlega.