Sérfræðingum ber saman um að fasteignamarkaðurinn sé að ná jafnvægi eftir 39% hækkun síðustu 12 mánuði, sem rekin var áfram af skipulagsbreytingum á lánamarkaði, almennri efnahagssveiflu og miklum fjölda ungs fólks sem er að stofna sitt fyrsta heimili. Flestum ber saman um að nafnverð íbúða komi til með að haldast en óvíst er hvort raunvirði haldist það er hvort almennt verðlag mun hækka á sama hraða og íbúðaverð.

Ásgeir Jónsson, hagfræðingur hjá KB banka, segir skipulagsbreytingar á lánamarkaði muni án efa verða til varanlegrar hækkunar á fasteigna- og lóðaverði hérlendis, en hagsveifluárhrifin munu líklega ganga til baka að einhverju leyti líkt og gerst hefur eftir fyrri uppsveiflur. "Flest bendir til þess að fasteignaverð muni staðnæmast á seinni helmingi þessa árs í þeim skilningi að verð á húsnæði mun hækka með svipuðum hraða og annað verðlag í landinu," segir hann. "Það tekur nokkurn tíma að byggja hús og af þeim sökum er aðalhættan sú að offramboð skapist á fasteignamarkaði þegar hagkerfið fer í lægð. Það er ef húsnæðiseftirspurn dettur niður á sama tíma og verið er að ljúka við uppbyggingu nýrra hús sem lagt var upp með í miðri uppsveiflunni. Hins vegar er á þessari stundu fátt sem bendir til verðhruns eða kollsteypu á húsnæðismarkaðinum hérlendis og raunar líklegt að húsnæðiseftirspurn verði fremur sterk hérlendis á næstu einum til tveimur áratugum ef litið er til fólksfjölgunar."

Ingvar Arnarson, sérfræðingur hjá Íslandsbanka, telur líklegt að verð íbúðarhúsnæðis muni hækka eitthvað áfram en að sú hækkun verði mun minni en á síðustu mánuðum. "Framboðið vex og íbúðir eru lengur á sölu en fyrir aðeins fáum vikum. Samningsstaða kaupenda styrkist á ný af þessum sökum. Sérbýli hafa til dæmis þegar lækkað í verði síðustu vikurnar ef marka má verðsjá fasteigna á vef Fasteignamats ríkisins," segir Ingvar. Með þeirri verðbólgu sem líklegt er að verði á næstunni telur Ingvar líkur á lækkun raunvirðis að minnsta kosti þegar kemur fram undir lok árs og fram á næsta ár.

Jón Guðmundsson, fasteignasali hjá Fasteignamarkaðnum, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að vissulega hafi eftirspurn minnkað síðustu vikur en það væri eðlilegt miða við árstíma. "Það vill oft verða lægð kring um sumarfrí fólks en svo eykst eftirspurnin aftur eftir verslunarmannahelgi. Það eru þó alltaf ákveðnar íbúðir og svæði í Reykjavík sem eru hafin yfir öll markaðslögmál."

Ingvar er þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að einhver leiðrétting verði á raunverði íbúðarhúsnæðis í ljósi þeirrar gífurlegu verðhækkunar sem átt hefur sér stað síðasta árið á íbúðamarkaði. "Efnahagsástandið er hins vegar gott og hrun mun tæpast eiga sér stað á íbúðaverði nema þá ef lánaframboð og/eða kaupmáttur launa dregst óvænt mikið og snögglega saman. Mjög ólíklegt er þó að slíkt gerist á næstunni. Þegar horft er til næstu ára er lækkun á raunvirði íbúða aftur á móti líkleg. Ekki er víst hvort nafnverð íbúða muni hækka hóflega eða beinlínis lækka þegar litið er til þessa tíma. Ekkert er útilokað í þessum efnum og fólki er ávallt hollast að hafa vaðið fyrir neðan sig hvað varðar skuldsetningu."

Í riti Landsbankans, efnahagsmál og skuldabréfamarkaður, sem kom út 20. júlí síðastliðinn voru taldir upp fjórir þættir sem þeir töldu að kæmu í veg fyrir hrun á markaðinum: Í fyrsta lagi aukinn aðgangur að lánsfjármagni, lækkun vaxta og lenging lánstíma hafi hækkað jafnvægisverð fasteigna varanlega. Í öðru lagi er kaupmáttur launa í sögulegum hæðum og ekki útlit fyrir að það breytist í bráð. Í þriðja lagi telur greiningardeildin góðar líkur á því að vextir fasteignaveðlána lækki enn frekar þegar núverandi uppsveiflu lýkur. Lækkun vaxta mun auka kaupgetu almennings og styðja við fasteignaverð. Í fjórða lagi hefur byggingatími styst mjög mikið á síðustu 10 árum og er nú að meðaltali eitt og hálft ár. Byggingavertakar geta þar af leiðandi hætt við framkvæmdir ef útlit er fyrir að verð verði ekki nógu hagstætt. Þetta ætti að draga úr líkum á langvarandi offramboði nýbygginga.