Bank2 Holding mun senda norskum dómstólum beiðni um tímabundið lögbann á sölu á hlutum í norska verðbréfafyrirtækinu Norse Securities til Íslandsbanka, segir í tilkynningu.

Í síðasta mánuði skrifaði Íslandsbanki undir samkomulag um kaup á öllum hlutum í Norse Securities og Norse Kapitalforvaltning, en Bank2 Holding er hlutahafi í Norse Securities ásamt öðrum málsaðilum.

Norska dagblaðið Dagens Næringsliv greindi frá þessu í dag og segir Íslandsbanki að greinin hafi engin áhrif á áætlanir Íslandsbanka í Noregi eða fyrirhuguð kaup á Norse Secrurities.

"Kaupin á Norse Securities ASA njóta stuðnings starfsmanna félagsins, stjórnenda þess og hluthafa Norse AS. Niðurstaða í málinu er væntanleg fyrir jól," segir Íslandsbanki í tilkynningu.