Fulltrúar lífeyrissjóðanna funda nú með fulltrúum Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins og fjármálaráðuneytisins. Fundurinn fer fram í fjármálaráðuneytinu.

Á fundinum munu lífeyrissjóðirnir fá svar við aðgerðaráætlun sem þeir lögðu fram á laugardaginn í kjölfar óskar ríkisstjórnarinnar um að þeir færi eitthvað af erlendum eignum sínum heim.

Ætlunin hafði verið að hittast í gær en málefni bankanna gerðu það að verkum að fresta varð fundinum.

Eftir því sem komist verður næst lögðu lífeyrissjóðirnir fram aðgerðaráætlun í 18 liðum sem svar við ósk ríkisins. Að sögn Arnars Sigurmundssonar, formanns stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða, var fremur um að ræða aðgerðaráætlun en skilyrði.

Eftir því sem komist verður næst er áfram gert ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir færi erlendar eignir yfir í ríkisskuldabréf sem skiptist á nokkra flokka. Hluti upphæðarinnar verður í íslenskum krónum en annað verður tryggt í evrum og dollurum.

Að sögn Arnars var ákveðið að lífeyrissjóðirnir kæmu fram sem ein heild í viðræðum sínum við ríkisstjórnina.