Saga Capital Fjárfestingarbanki fór af stað með útboð í vikunni, sem áætlað er að muni fjármagna lagningu sæstrengs milli Íslands og Danmerkur, DANICE-strengurinn. Þetta er mikilvægur hlekkur í gagnasambandi Íslands og meginlandsins og ein meginforsenda þess að hægt verði að byggja  upp gagnaver og vistun hér á landi, eins og mikið er rætt.

Móðurfélag Farice hf., E-Farice ehf., hefur nú þegar undirritað samninga við Verne Holding, umsjónaraðila gagnavers á Keflavíkurflugvelli, þar sem Farice mun  tryggja gagnaflutninginn. Viðræður standa yfir við fleiri aðila. Útgefandi skuldabréfanna er Farice hf. og er ávöxtunarkrafan 5,50%. Um er að ræða 25 ára jafngreiðslubréf og er stærð flokksins upp á fimm milljarða. Að baki stendur full einföld ábyrgð ríkissjóðs.

Saga Capital Fjárfestingarbanki  er umsjónaraðili skráningar og söluaðili bréfanna. Bankinn hefur undanfarna mánuði verið leiðandi í sölu skuldabréfa á markaði fyrir sveitarfélög og opinbera aðila, en þar má nefna fjármögnun Kópavogs, Árborgar og Byggðastofnunar.