Eignarhaldsfélag Farice, sem rekur sæstrenginga Danice og Farice, tapaði tæplega 990 milljónum króna á síðasta ári. Þetta er þrátt fyrir það nokkuð betri afkoma en árið 2011 þegar tapaði tæpum 1,4 milljörðum króna.

Fram kemur í uppgjöri Farice að heildartekjur námu 10,1 milljón evra, jafnvirði rúmra 1,6 milljarða króna. Ári fyrr voru tekjurnar 7,2 milljónir evra. Rekstrartekjur fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) námu 3,9 milljónir evra í fyrra. Það er um þrefalt meira en í hittifyrra þegar tekjurnar námu rúmum 1,3 milljónum evra.

Eignir Farice námu 111 milljónum evra í lok síðasta árs sem er um 10 milljónum minna en undir lok árs 2011. Skuldir námu 59,2 milljónum evra og nam eigið féð 51,7 milljónum evra. Það er um sex milljónum evrum minna en við lok árs 2011.

Heildartekjur félagsins jukust um 41% en kostnaður um 7%. Í tilkynningu með uppgjörinu segir að gríðarleg fjárfesting félagsins leiði hins vegar til hárra afskrifta og fjármagnskostnaðar sem samtals nemur sömu upphæð og velta félagsins.

Ríkissjóður bjargaði Farice

Hafa verður í huga að fyrir tæpu ári síðan átti Farice ekki fyrir afborgunum lána upp á tæpar 230 milljónir króna og var hætt á að fjarskiptasamband landsins raskaðist verulega. Skilyrði í lánasamningum komu hins vegar í veg fyrir að hægt væri að skuldsetja félagið frekar auk þess sem ESA, eftirlitsstofnun EFTA, leyfði ríkinu ekki að veita frekari aðstoð með beinum hætti. Innanríkisráðuneytið brá því á það ráð að gera fimm ára þjónustusamning við fyrirtækið sem kostaði ríkissjóð 355 milljónir króna. Með þessu móti var komið í veg fyrir greiðslufall Farice. Í minnisblaði fjármálaráðherra til ríkisstjórnarinnar í tengslum við slæma stöðu Farice frá í apríl í fyrra sagði m.a. að hagkvæmast sé fyrir ríkissjóð að tryggja áframhaldandi rekstur félagsins.

Sambandið hefur haldist í mörg ár

Í tilkynningu með uppgjörinu segir að kerfisrekstur félagsins gekk vel og áreiðanleiki þjónustu Farice eftirtektarverður en ekki varð rof á sambandi Íslands við umheiminn á síðasta ári. Þannig hefur það reyndar verið allt frá lagningu Danice strengsins. Frá upphafi félagsins hefur aldrei orðið rof a sæstrengshluta félagsins frá því að Farice-1 strengurinn var tekinn í notkun 2004.

Uppgjör Farice var birt fyrir helgi. Í morgun var svo greint frá því að skuldabréf fyrirtækisins hafi verið tekin af Athugunarlista Kauphallarinnar.