Dregið hefur úr gjaldþrotum fyrirtækja almennt þótt þeim hafi fjölgað um rúm 50% á milli mánaða í maí og er nýskráningum fyrirtækja að fjölga. Á þetta bendir Greining Íslandsbanka í Morgunkorni sínu í dag og bætir við að ljóst sé af þróuninni að farið sé að sjá til lands í fjárhagslegri endurskipulagningu atvinnulífsins.

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun voru 112 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta í síðasta mánuði samanborið við 54 í apríl.

Greining Íslandsbanka bendir á að aukningin nú skýrist af árstíðabundinni sveiflu og fjölgi gjaldþrotum yfirleitt á þessum tíma árs. Borið saman við sama mánuð í fyrra hafi gjaldþrotum í raun fækkað um 36% á milli ára.

Í Morgunkorninu kemur fram að það sem af er ári hafi flest gjaldþrot verið í byggingargeiranum eða alls 101 fyrirtæki á árinu. Þetta eru tæp 20% allra þeirra fyrirtækja sem fóru í þrot. Á hæla byggingargeirans koma fyrirtæki í verslun en 99 þeirra hafa farið í þrot það sem af er árs.

Greiningardeildin bendir ennfremur á að í síðasta mánuði hafi 151 einkahlutafélag nýskráð. Þetta er 25 fleiri nýskráningum en í apríl. Ef miðað er við sama tíma í fyrra nemur aukningin 20%. Flestar nýskráningar hafa verið í verslun það sem af er ári eða 17% af öllum nýskráningum. Næst flestar voru þær í fasteignaviðskiptum, eða 15% af heildarfjölda nýskráninga á tímabilinu.