Friðjón Sigurðarson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs hjá fasteignafélaginu Reitum sem á og rekur húsnæði Vöku við Skútuvog 8 segir að á lóðinni geti verið allt að 10 þúsund fermetra húsnæði sem væri hentugt vegna staðsetningar sem vöruhús, en í raun komi ýmis notkun til greina á lóðinni.

„Skipulagið leyfir rýmisfrek verkefni þarna, eins og eru fyrir á svæðinu, líkt og Holtagarðar og Húsasmiðjan eru dæmi um," segir Friðjón. „Þannig væri hægt að vera með verslun þarna, eða léttan iðnað eða vöruhús."

Ekki góð nýting á lóðinni

Húsnæði Vöku á lóðinni er um 2.000 fermetrar en hann segir það ekki vera góða nýtingu á 16.500 fermetra lóð.

„Svo er húsið komið til ára sinna," segir Friðjón en hann segir teikningar sem félagið hefur birt af húsnæði á lóðinni vera einungis ein af þeim hugmyndum sem kæmi til greina.

„Þá smyrst það yfir alla lóðina, en ef húsnæðið væri notað meira í verslun þá yrði það væntanlega dregið meira saman, gerð fleiri bílastæði og það haft á tveimur hæðum og þar fram eftir götunum.

Við erum ekki að fara að byggja eitthvað hús upp á von og óvon, heldur erum við að fara að finna leigutaka og vinna þetta með honum."

Minna en húsnæði Costco

Til samanburðar má nefna að húsnæði Costco í Kauptúni í Garðabæ verður allt að 14.000 fermetrar að stærð.

„Þetta gæti líka litið út svipað og N1 húsið á Dalveginum, með skrifstofubyggingu á öðrum endanum, sem myndi snúa annað hvort að Skútuvoginum eða Sæbrautinni, og svo vöruhús með," nefnir Friðjón sem dæmi um það sem væri mögulegt að gera á lóðinni.

„Nú er Vaka í húsinu, svo við erum að horfa á að framkvæmdir geti hafist um mitt ár 2019, jafnvel fyrr, en einnig mögulega síðar.“

Leigusamningur til allt að 15 ára

Friðjón segist ekki geta gefið upp verðhugmyndir því það fari allt eftir því hvers konar húsnæði yrði byggt þarna, en þeir hjá Reitum stefna að því að fá leigjanda til langs tíma í húsið.

„Við erum að horfa til svona 10 til 15 ára leigusamnings líkt og við þekkjum í öðrum vöruhúsum sem við leigjum út," segir Friðjón sem er bjartsýnn á að fá góð viðbrögð við auglýsingu fyrirtækisins á leigjendum sem birtist fyrr í dag.

„Það hefur verið að þrengja að vöruhúsum, svo á að fara að breyta Vogahverfinu í íbúðarhverfi, og svo er uppgangur í þjóðfélaginu og þá er þörf á stærri lagerum.“