Björn Þorvaldsson, saksóknari, fór fram á fjögurra og hálfs árs fangelsisvist yfir sakborningunum í Exeter málinu svokallaða fyrir Hæstarétti í gær. Þar kom fram að saksóknari telur mikla annmarka á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem sýknaði þá Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrverandi forstjóra Byrs, Jón Þorstein Jónsson, fyrrverandi stjórnarformanns sparisjóðsins og Styrmi Bragason, fyrrverandi forstjóra MP Banka. Saksóknari tók þó fram að ef dómurinn teldi brot Styrmis vera gáleysisbrot þá ætti að dæma hann til tveggja til fjögurra mánaða skilorðsbundinnar refsingar. Þetta kemur fram í fréttablaðinu í dag.

Saksóknari telur meðal annars að rangar ályktanir hafi verið dregnar og litið fram hjá mikilvægum atriðum í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Þá sagði hann einnig að Ragnar hefði ekki haft heimild til að kasta peningum út um gluggann. Var það svar við því að Ragnar hafi bent á að hann hafi sem forstjóri haft heimild til að lána allt upp undir einn og hálfan milljarð, þvert á lánareglur félagsins.