Bandaríski tæknirisinn Apple hefur ráðið til sín Finnan Ari Partinen. Hann starfaði áður hjá finnska farsímaframleiðandanum Nokia. Eins og erlendir fjölmiðlar lýsa Partinen þá er hann heilinn á bak við Pureview-myndavélatæknina hjá Nokia. Í netritinu TechTimes segir að af mannaráðningunni megi álykta að Apple ætli að bretta upp ermarnar í samkeppninni um bestu myndavélarnar í farsímum.

Partinen hóf störf hjá Nokia árið 2007 og var eitt af hans fyrstu verkum að þróa - í samstarfi við aðra - símann Nokia Pureview 808 sem var með 41 MP myndavél. Ef aðeins var horft á gæði myndavélarinnar þá skaraði síminn fram úr öðrum farsímum. Ef öðrum þáttum var bætt við, s.s. tæknilega hlutanum, þá heltist hann úr lestinni. Þar skipti máli að síminn keyrði á Symbian-stýrikerfi Nokia, sem hætt er að þróa.

Partinen vann jafnframt að þróun nýrri síma, ekki síst myndavéla símans Nokia Lumia 1020 . Í TechTimes segir að ráðning Partinen sé góð fyrir Apple en takmarkað högg fyrir Microsoft, sem nýverið lauk kaupum á Nokia, enda hafi margir tæknimenn komið að þróun myndavélasíma Nokia. Þá segir í TechTimes að þótt Partinen geti hugsanlega komið að þróun betri og nýrrar myndavélar í næsta síma Apple, iPhone 6, þá sé líklega ekki að vænta 41 MP myndavélar í næsta iPhone-síma.