Hector Sants, fyrrverandi forstjóri breska fjármálaeftirlitsins, hefur verið ráðinn til breska bankans Barclays. Hlutverk hans verður að taka regluvörslu bankans í gegn. Sants var forstjóri breska fjármálaeftirlitsins frá miðju ári 2007 og fram í júní á þessu ári. Eitt af síðustu verkum hans var að koma upp um víðtækt brask með millibankavexti hjá Barclays sem leiddi til þess að bankinn varð að greiða um 290 milljónir punda eða sem nemur 60 milljörðum króna í sektir. Í kjölfarið tóku æðstu starfsmenn bankans, þar á meðal stjórnarformaður og bankastjórinn poka sína.

Í umfjöllun breska dagblaðsins Guardian segir að Sants muni ekki vinna með fjármálaeftirlitinu að rannsóknum sem enn standa yfir vegna meintra brota starfsmanna Barclays.