Fyrir níu árum stofnuðu hjónin Bergþóra Guðnadóttir og Jóel Pálsson fyrirtæki sem þau vildu að væri sjálfbært. Á þessum níu árum hefur fyrirtækið verið rekið réttu megin við núllið og selur vörur sínar í um 40-50 verslunum erlendis. Vörurnar frá Farmers Market hafa rutt sér vel til rúms hér á landi og eru flestum Íslendingum kunnugar. „Við byrjuðum mjög rólega og vorum bæði í öðru starfi með,“ segir Jóel spurður um upphafið. „Það var dálítið mikið annað hugarfar í gangi hjá þjóðinni árið 2005, hálfgerð bilun fannst okkur. Margir voru með fullar hendur fjár og við skildum ekki hvaðan þessir peningar komu. Á þessum tíma vorum við mikið að velta því fyrir okkur hvernig þetta ástand og lífsstíll sem var í gangi gæti gengið upp til lengri tíma litið. Þessar pælingar voru í raun kveikjan að hugmyndinni um Farmers Market konseptið, og þessa tilraun okkar til að stofna hönnunarfyrirtæki sem hugaði að sjálfbærni í víðum skilningi. Í okkar huga er sjálfbærni jafn mikilvæg þegar kemur að því hvernig við vinnum og framleiðum vörurnar og að fyrirtækið sé fjárhagslega sjálfbært og vaxi á lífrænan hátt. Við höfum reynt að gera okkar besta og það hefur gengið upp hingað til þótt það taki auðvitað miklu lengri tíma og geti verið talsvert vesen. Við skildum bara ekki hvernig hlutirnir gengu fyrir sig á þessum tíma og svo kemur í ljós að það skildu það líklega ekki mjög margir. Okkur finnst mjög óþægilegt að gera eitthvað sem við skiljum ekki.“

Farmers market vörur fást í dag í hátt í 50 verslunum víða um heim, meðal annars í Tókýó, París, New York og Madríd. Vörurnar fást á 15 stöðum í Japan. Nýlega voru vörurnar teknar inn í þekkta stóra verslunarkeðju þar í landi. „Það er talsvert ferli að komast þar inn, en þeir þurftu m.a. að fá vottorð frá öllum okkar framleiðendum til að fullvissa sig um að þetta væru þau efni sem við sögðum að þetta væru og væri framleitt eins og við sögðum. Síðan setja þeir vörurnar í gæðapróf og ef allt stenst þeirra kröfur þá leggja þeir inn litla pöntun. Svo verður kannski meira magn næst, það kemur í ljós.“

Nánar er rætt við Jóel og Bergþóru í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.