Farmur flutningaskipsins Winter Bay, sem nú siglir norður fyrir Rússland með hvalkjöt á leið sinni til Japan, er um tveggja milljarða króna virði. Þetta segir Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, í viðtali við norska sjávarútvegsblaðið FiskeribladetFiskaren sem Skessuhorn greinir frá.

Kristján segir í viðtalinu að flutningaskipið hafi innanborðs 1.800 tonn af hvalkjöti og -spiki og heildarverðmæti farmsins sé um 125 milljónir norskra króna. Eins og greint var frá í gær er áætlað að skipið komi til hafnar í Japan í september næstkomandi.

Kristján blæs á alla gagnrýni á að norðausturleiðin hafi verið valin. Telur hann sig frekar eiga skilið hrós fyrir að hafa valið umhverfisvæna flutningaleið sem stytti siglingu Winter Bay um 8.000 sjómílur.