Faroe Petroleum plc. hefur fundið gas á Glenlivet leitarsvæðinu vestan við Shetlandseyjar. Greint er frá fundinum á vefsíðu Faroe Petroleum. Hafdýpi á borsvæðinu er um 436 metrar og var borða niður í gaslind á rúmlega 2,3 kílómetra dýpi þann 11. september. Munu nú fara fram athuganir á því hvort borholan skili nægu gasi til að geta talist rekstarhæf. Fyrstu vísbendingar lofa mjög góðu.

Það var breska fyrirtækið DONG E&P Ltd. sem stóð fyrir boruninni og var borpallurinn Transocean Rather notaður í verkið. Faroe Petroleum á 10% í borholunni sem fengið hefur númerið 214/30a-2.

Á Glenlivet leitarsvæðinu hefur áður fundist svokölluð Laxford gaslind sem Faroe Petroleum á einnig 10% í. Hún var þó ekki talin gefa nóg af sér til að það borgaði sig að vinna hana. Með gasfundinum nú aukast líkurnar á að það borgi sig að vinna þarna gas með því að samtengja lagnir frá holunum.

Nýja holan er í 15 kílómetra fjarlægð frá gasleiðslu sem fyrirhugað er að leggja frá Laggan gaslindunum til Sullome Voe á Shetlandseyjum. Er þetta fyrsta borholan af 5 sem Faroe Petroleum mun taka þátt í að láta bora á næstunni. Gert er ráð fyrir að byrjað verði á annarri borholu í lok september og þá á olíuleitarsvæðinu Tornado.

Stærstu hluthafarnir í Faroe Petroleum er Dana Petroleum plc með 27,53% hlut, Artemis Investment Management með 7,5%, AXA Framlington Investment Managers með 6,87%, Landsdowne Partners með 6,33% og Henderson Global Investors með 5,08% hlut. Félagið er skráð á markaði í London og á hlutdeild í 50 olíuleitarheimildum við Færeyjar, breska svæðinu vestur af Shetlandseyjum, í Norðursjó og við Noreg.