Eigandi færeyska sjávarútvegsfyrirtækisins Faroe Seafood, Framtaksgrunnur Føroya sem er í eigu færeyska ríkisins, hefur ákveðið að selja fyrirtækið. Faroe Seafood er stærsta einstaka framleiðslu- og sölufyrirtæki sjávarafurða í Færeyjum og samkvæmt Morgunkorni Íslandsbanka hafði legið í loftinu um nokkurt skeið að það yrði selt. Faroe Seafood varð til úr samruna Føroya Fiskasøla og í lok árs 2004 var United Seafood sameinað félaginu.

Fyrirtækið hefur ekki yfir aflaheimildum að ráða en byggir starfsemi sína m.a. á föstum samningum við báta og skip auk þess sem það kaupir fisk á fiskmörkuðum í Færeyjum. Samkvæmt tilkynningu er frestur til að skila inn kauptilboðum í fyrirtækið 21. nóvember.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.