„Farsælt samstarf Íslands og Evrópusambandsins snýst um EES-samstarfið. Svo hefur verið um tuttugu ára skeið og svo mun vera í náinni framtíð,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra þegar hann flutti skýrslu sína um utanríkismál í morgun.

Gunnar Bragi ítrekaði að Evrópa væri einn okkar mikilvægasti markaður og Íslendingar vildu áfram tengjast Evrópu og ESB traustum böndum. „Við höfum sótt fram á sameiginlegum evrópskum markaði, markað okkur sérstöðu og rekið þar sterka hagsmunagæslu. Þessu höfum við getað áorkað vegna þess trausts sem ríkir milli okkar og bandamanna okkar í Evrópu – þótt stundum geti þykknað upp eins og gerði nú nýverið með sjálftöku ESB og annarra strandríkja úr makrílstofninum,“ sagði á ráðherrann.

Gunnar Bragi sagði að samningurinn væri ekki án áskorana sem eðlilegt væri í svo umfangsmiklu samstarfi. „Í því ljósi ber að fagna ákvörðun ríkisstjórnarinnar um Evrópustefnu sem byggist á efldri hagsmunagæslu á vettvangi EES-samningsins og annarra gildandi samninga Íslands og ESB. Í stefnunni er lögð áhersla á skilvirka framkvæmd EES-samningsins, m.a. með því að efla samráð innan stjórnsýslunnar og við Alþingi,“ sagði Gunnar Bragi.

Hann sagði að áfram yrði lögð áhersla á áframhaldandi sjálfstæð, virk og náin samskipti og samstarf við ESB og aðildarríki þess. Hann minntist jafnframt á að um þessar mundir væru tuttugu ár frá því samningurinn tók gildi og því ekki úr vegi að unnið yrði mat á hagsmunum Íslands af EES samningnum, eins og boðað hefði verið.