Þessi farsi sem settur er á svið á hverjum degi í flugstöðinni grefur undan trausti á aðgerðum og forvörnum og tvístrar samstöðu almennings. Þessar aðgerðir virka ekki,“ skrifar Birgir Jónsson í færslu á Facebook í gær.

Hann segir reglur stjórnvalda á landamærum vera mjög óskýrar og að öll flugfélög séu því með sínar eigin reglur um skilyrði fyrir byrðingu.

„Allir farþegar enda svo í einni kös í marga klukkutíma þegar heim er komið. Þúsundir manna frá öllum löndum sem blandast saman á pínulitlu svæði og það er algerlega óljóst hvort að sá sem stendur þér við hlið sé með neikvætt próf eða ekki, hvað sem einhver reglugerð segir. Ég má standa þétt með þúsund manns í flugstöðinni en ekki fara í leikhús með 500 manns? Allt í nafni sóttvarna,“ segir Birgir og bætir við að fyrirkomulegið sé dæmt til að mistakast og gefi falskt öryggi.

Hann kallar eftir að landið verði opnað fyrir fullbólusettum ferðamönnum. Sömuleiðis vill hann sjá skynsemina ráða för, sem felst í að Íslendingar fari í skimun eftir heimkomu og haldi sig almennt til hlés á fyrstu dögunum heima. „Fólk sem er ekki fullbólusett ætti að hugsa sig tvisvar um áður en það ferðast.“

„Panikk“ í fréttaflutningi hérlendis

Færsla hans Birgis kom í kjölfar ummæla Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis í útvarpsþættinum Sprengisandi í gær um að stjórnvöld þurfi nýja nálgun gegn kórónaveirunni og virtist gefa í skyn að nú þyrftu aðgerðir í auknum mæli að snúast um að vernda viðkvæma hópa en að reyna að ná hjarðónæmi með að leyfa veirunni að ganga á milli.

Birgir tók undir þessa stefnu og þó hann „viti ekkert um sóttvarnir né faraldsfræði“ þá skynji hann þegar talið er af skynsemi líkt of „hinn góði doktur“ Þórólfur gerði á Sprengisandi.

„Flest lönd virðast vera að átta sig á þessu sama og raunar virðist vera um lítið val að ræða hvort sem okkur líkar vel eða illa. Veiran fær sínu fram og aðgerðir virðast ekki virka nema tímabundið eða með því að samfélagið færi miklar fórnir. Fórnir sem kannski gætu virst þess virði ef þær væru tímabundnar en það virðist því miður ekki vera staðan, þetta er langhlaup,“ segir Birgir.

Hann lýsir fréttaflutning á Íslandi sem meiri „panikk“ en erlendis, þar sem allt sé virðist vera við þolmörk hér. Birgir telur að kosningarnar í haust séu farnar að lita fréttir af kórónaveirunni. „Allskonar hagsmunir og flokkadrættir. Skynsemin í umræðunni ekki alltaf augljós, eins og svo oft í okkar litla landi.“

Birgir segir að á ferðalögum sínum um Evrópu síðustu vikur hafi hann upplifað að samgöngur og starfsemi á flugvöllum gangi smurt fyrir sig þó grímuskylda, útgöngubann og/eða styttri opnunartími séu ýmist við lýði. „Aðal málið er að lífið heldur áfram.“

Dugar ekki að læsa dyrum og birgja glugga

„Fólk er ekki að bíða storminn af sér. Fólk heldur áfram að lifa og njóta, þó að lífið sé kannski ekki alveg eins og áður. Það er mikilvægt því tími okkar í þessu lífi er naumur og hversu lengi getum við haft allt í hægagangi ef ógnin við almannahagsmuni er ekki augljós?“

Hann segir að listalífið, íþróttir og ferðaþjónustan þurfi að komast aftur í gang og að samfélagið þurfi að lifa með „þessari óværu“, með því að nota bólusetningar, hreinlæti, grímur og almenna skynsemi.

„Óvinurinn er ekki fyrir utan húsið og það dugar ekki bara að læsa dyrum og birgja glugga þar til hann fer. Óvinurinn er kominn inn og verður þar hvort sem við skellum í lás og slökkvum ljósin eða ekki.“

Að lokum segist hann binda vonir við að „þessi skynsama og raunsæja“ nálgun sem Þórólfur talaði um í Sprengisandi nái yfirhöndinni í Covid málum hérlendis á næstunni.

Færsla Birgis birtist fyrir kvöldfréttir RÚV þar sem Þórólfur sagði stefnu sóttvarnaryfirvalda vera óbreytta að halda veirunni í skefjum. Þórólfur sagði að annað hvort hafi hann ekki verið nógu skýr eða ummælin sín á Sprengisandi verið túlkuð vitlaust.