Eigið fé Teymis sem nú er í nauðasamningaferli í umsjón Landsbankans hrundi með ótrúlegum hraða á árinu 2008. Þann 31. mars var bókfært eigið fé félagsins samkvæmt efnahagsreikningi 7.780 milljónir króna og eiginfjárhlutfall 19%.

Aðeins níu mánuðum seinna, 31. desember 2008, var eigið fé orðið neikvætt sem nam -25.112 milljónum króna. Er þetta neikvæður viðsnúningur upp á tæpa 33 milljarða króna.

Athygli vekur að góð eiginfjárstaða í mars 2008 er skýrð með endurmati á virði farsímakerfis Vodafone samkvæmt gangvirði úr 2,1 milljarði í 7,4 milljarða króna. Hækkaði það bókfært eigið fé um 4,6 milljarða.

Í árslok 2008 var búið að lækka varanlega rekstrarfjármuni um rúma 4.6 milljarða eða sömu tölu og hækkun eigin fjár í mars.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er þar um niðurfærslu sama farsímakerfis að ræða. Þá voru óefnislegar eignir orðnar 11,4 milljarðar í stað 22,2 milljarða króna í mars. Ekki fengust skýringar á þessu hjá forsvarsmönnum Teymis né Landsbankans fyrir prentun blaðsins.