*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 28. desember 2007 11:16

Farsímanotkun barna og unglinga

Ritstjórn

Vodafone hefur gefið út í bæklingi leiðbeiningar og góð ráð til foreldra vegna farsímanotkunar barna og unglinga. Bæklingurinn er  unninn í samvinnu við SAFT - Samfélag, fjölskyldu og tækni - og með útgáfunni vill Vodafone stuðla að ábyrgri farsímanotkun ungs fólks.  Bæklingurinn liggur frammi í verslunum Vodafone og hjá umboðsmönnum um allt land, auk þess sem rafræna útgáfu er að finna á slóðinni http://www.vodafone.is/images/farsimanotkunbogu.pdf.

Í tilkynningu vegna útgáfunnar segir að níu af hverjum tíu börnum í 4. – 10. bekk á Íslandi eigi farsíma. Helmingur þeirra segir að engar reglur hafi verið settar um farsímanotkun þeirra þótt símarnir verði sífellt fullkomnari, notkunarmöguleikarnir fjölbreyttari og foreldrar eigi í mörgum tilfellum erfitt með að fylgjast með þróuninni. Nú er t.d. hægt að skoða Netið í farsímanum, taka ljósmyndir og hreyfimyndir, spila tölvuleiki og horfa á sjónvarpið í farsímanum.

Ástæður farsímanotkunar barna og unglinga eru fjölbreytilegar sem og aðstæður hvers og eins. Þannig getur farsíminn ýmist verið öryggistæki, leiktæki eða almennt samskiptatæki.  Algengt er að börn og unglingar eigi samskipti með SMS skilaboðum eða hringist á og þannig verður félagslega mikilvægt að eiga farsíma. Í þessu samhengi er traust milli foreldra og barns lykilatriði enda getur hver sem er haft samband við barnið hvenær sem er, án vitundar foreldra, og öfugt.

Foreldrar verða að ákveða, hverjir fyrir sig, hvenær þeir telja barnið sitt nægilega þroskað til að nota farsíma. Bæði foreldrar og börn verða að átta sig á mikilvægi ábyrgrar notkunar og skynsamlegt er að setja skýrar reglur um farsímanotkunina þar sem væntingar beggja aðila eru uppi á borðinu. Hafa ber í huga, að farsímar geta verið dýr tæki og það kostar sitt að nota þá. Sameiginlegur skilningur foreldra og barna á því er forsenda fyrir jákvæðri upplifun af notkun farsímans.