Teddy Søgaard Pedersen, forstjóri Mobile Partners UK, sem starfrækir farsímaþjónustu í samvinnu við IKEA á netinu, vill að sögn Børsen markaðssetja farsíma í verslunum IKEA á 25-40% lægra verði en nú tíðkast þar á markaði og hrinda þannig af stað verðstríði í Bretlandi.

Farsímafyrirtækið á vegum IKEA á netinu heitir Family Mobile og þjónustar breska símafyrirtækið T-Mobile farsímaþjónustu þess.

Pedersen telur gríðarleg tækifæri felast í slíkri markaðssetningu, enda heimsækja um 45 milljónir Breta hinar sautján verslanir IKEA í Englandi á hverju ári.

Gæti orðið ráðandi á enska markaðinum

FamilyMobile einbeitir sér einkum að sölu farsíma og símakorta á netinu og hefur boðið mjög hagstæð kjör á þjónustu sinni.

Blaðið vitnar í John Strand, sem sérhæfir sig í greiningu í sviði samskiptatækni, en hann telur mikla möguleika felast í þessari hugmynd.

„Við teljum að FamilyMobile IKEA muni á skömmum tíma breytast úr því að vera ódýrasta farsímafyrirtæki Englands til að vera þróaðasti aðili á enskum farsímamarkaði,” segir hann.

Heimasíða Familymobile, sem þjónar um 1,4 milljónum meðlima, er starfrækt af dönskum aðilum, Retouch.