Android farsímakerfi Google er mun berskjaldaðra fyrir árás tölvuþrjóta en iPhone farsímar Apple, að mati öryggisfyrirtækisins Trend Micro.

Í frétt Bloomberg er ástæðan sögð sú að farsímakerfi Google er opið öllum og því auðveldara fyrir óprúttna aðila að kynna sér allar hliðar Android. Trend Micro mæla með að eigendur Android kaupi vírusvörn í farsíma sína.

Samkeppni á milli Android-síma og iPhone er afar hörð og tilkynnti Verizon, stærsti söluaðili farsíma í Bandaríkjunum, í gær að héðan í frá mun vera hægt að kaupa iPhone hjá þeim. Talið er að samstarf Verizon og Apple verði töluvert högg fyrir Google.