Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA) hefur ákveðið að aflétta banni á farsímanotkun á meðan flugi stendur. BBC News greinir frá þessu.

Hingað til hafa flugfarþegar ávallt þurft að slökkva á farsímum sínum áður en flugvél fer í loftið. EASA segir hins vegar að nú sé ljóst að notkun raftækja hafi ekki nokkur áhrif á öryggi á meðan flugi stendur. Þetta mun hafa í för með sér að flugfélög geta nú heimilað farsímanotkun um borð í flugvélum sínum, en þurfa þó fyrst að uppfylla ákveðna öryggisstaðla hjá stofnuninni.