Sala á farsímum jókst um 60% að raunvirði á milli ára í febrúar. Snjallsímavæðingin heldur því enn áfram og líklega má leiða líkur að því að tölvusamskipti færist í sífellt meira mæli yfir í símtækin, að því er fram kemur í umfjöllun Rannsóknaseturs verslunarinnar á Bifröst .

Rannsóknasetrið segir að greina megi stöðugleika í verslun. Dregið hafi úr verðhækkunum og neysla virðist smám saman vera að aukast. Þá sé verslunin sömuleiðis að færast í venjulegt horf eftir jólaverslun og hefðbundnar janúarútsölur.

Sala á húsgögnum hefur skroppið saman

En svo segir í umfjöllun Rannsóknasetursins:

„Þó verslun sé smám saman að aukast á ný þá á hún enn langt í land með að ná fyrri styrkleika. Ef horft er fimm ár aftur í tímann, til febrúar 2008, þá sést að húsgagnaverslun hefur dregist saman um 53% að raunvirði. Fataverslun hefur dregist saman á þessum tíma um 33%, skóverslun um 25%. Á þessu fimm ára tímabili dróst dagvöruverslun saman um 7,4% að raunvirði þrátt fyrir að landsmönnum hafi fjölgað um 3,2% og fjöldi erlendra ferðamanna aukist um næstum 60%.“