Breytingar verða á verðskrá Vodafone þann 1. apríl næstkomandi. Nær öll símtöl í önnur kerfi hækka í verði sem og farsímaáskriftir. Tilkynnt er um breytingarnar á heimasíðu Vodafone .

Segir að um sé að ræða alhliða endurskoðun á verðskrá sem ætlað er að endurspegla betur kostnað við rekstur ólíkra þjónustuleiða. Mismunandi er hvort verð á þjónustuleiðum hækkar, lækkar eða stendur í stað.

„Kostnaður við rekstur Vodafone hefur aukist nokkuð á undanförnum árum, án þess að honum hafi verið ýtt yfir á neytendur. Þar má bæði nefna hækkun á ýmsum aðföngum og sköttum. Þvert á móti hefur Vodafone boðið hagstæðari þjónustuleiðir en áður með með miklum ávinningi. Að meðaltali hefur því kostnaður viðskiptavina við símaþjónustu dregist verulega saman. Þannig hefur kostnaður viðskiptavina Vodafone með farsíma áskrift að meðaltali lækkað um 11% frá ársbyrjun 2008, þrátt fyrir að notkunin hafi aukist. Kostnaður viðskiptavina með farsíma í frelsi hefur lækkað um 23% og af heimasímaþjónustu um 33%. Í síðastnefnda tilvikinu hefur notkunin þó dregist saman en ekki aukist, þar eð hún hefur færst yfir í farsímann,“ segir á heimasíðu Vodafone.

Breytingarnar má skoða hér .