Rúmlega fimmtíu þúsund viðskiptavinir Símans geta nú virkjað rafræn skilríki á farsímann sinn án endurgjalds. Fram kemur í fréttatilkynningu frá Símanum að farsímaskilríki séu talin ein öruggasta auðkenningin sem unnt er að nota á netinu.

Rafræn undirskrift vegna skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar er forsenda þess að ríkið telji umsækjendur hafa samþykkt ráðstöfunina. Þór Jes Þórisson, forstöðumaður tæknimála hjá Símanum, segir kröfu ríkisstjórnarinnar mikla hvatningu fyrir fólk að fá sér rafræn skilríki. „Með skilríkjunum í símanum er notandinn með hæsta öryggisstig sem er í boði í dag. Ástæðan er einföld, lykilorðið er aldrei á netinu og undirritunin er í öruggu umhverfi á SIM-kortinu.“

Hægt er að virkja rafrænu skilríkin í verslun Símans í Kringlunni frá kl. 12-17 virka daga og 13-18 um helgar.