Hönnuðir hjá bandarísku netversluninni Amazon eru sagðir vinna að því á bak við tjöldin að búa til snjallsíma.

Ný spjaldtölva frá Amazon, Kindle Fire, kom á markað í vikunni.

Í netútgáfu bandaríska dagblaðsins Los Angeles Times segir líklegt að af verði þá muni síminn kosta álíka mikið og Kindle Fire-tölvan, tæpa 200 Bandaríkjadali, og koma á markað eftir ár, þ.e. á fjórða ársfjórðungi 2012. Blaðið segir símann jafnframt líkjast öðrum snjallsímum að því leyti að eigendur Amazon-símans geta nýtt hann til að horfa á kvikmyndir, skoðað ljósmyndir og hlustað á tónlist - og er þá fátt eitt nefnt.

Eftir því sem blaðamenn Los Angeles Times komast næst yrði síminn með 8 MP myndavél, 4 tommu snertiskjá og styðja við nýjustu tækni í gagnaflutningum, þ.e. 4G.