*

laugardagur, 26. september 2020
Innlent 8. júlí 2019 17:23

Farþegafjöldi Icelandair eykst um 15%

Í júnímánuði voru farþegar Icelandair 553 þúsund en fækkun var í innanlandsflugi Air Iceland Connect.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Icelandair flutti 553 þúsund farþega í heildina í júnímánuði, sem er aukning um 15% frá sama tímabili fyrir ári síðan. Á sama tíma jókst framboð sætanna um 8%, en sætanýtingin fór í 88%, en hún var 84,4% í júní í fyrra.

Farþegum fjölgaði verulega bæði til og frá Íslandi – um 41% til Íslands, sem nam um 61 þúsund farþegum, og um 27% á heimamarkaðinum frá Íslandi, sem nam tæplega 15 þúsund farþegum, en í heildina voru 211.40 farþegar til landsins í mánuðinum en 271.886 farþegar fóru til viðbótar um Keflavíkurflugvöll. Loks voru 69.495 farþegar sem hófu ferð sína frá Íslandi.

Segir félagið að aukningin komi til m.a. vegna áherslu þess á að lágmarka áhrif kyrssetninga Boeing 737 Max véla félagsins auk þess sem kallað er breytinga í samkeppnisumhverfi á markaðnum. Þar er væntanlega átt við gjaldþot Wow air í lok mars síðastliðnum.

Atlantshafsmarkaðurinn var stærsti markaður félagins í júní með 49% af heildarfarþegafjölda og dróst fjöldi skiptifarþega lítillega saman á milli tímabila, eða um 1%. Komustundvísi í leiðarkerfi félagsins í júní nam 64% samanborið við 40% í júní á síðasta ári en góður árangur hefur náðst í að bæta stundvísi þrátt fyrir minni sveigjanleika í flugáætlun félagsins vegna kyrrsetningar MAX véla félagsins.

Farþegar Air Iceland Connect voru 25 þúsund í júní og fækkaði um 13%, sem er í takt við samdrátt í framleiðslu á milli ára. Sætanýting nam 72,3% og jókst um 2,7 prósentustig á milli ára. Seldum blokktímum í leiguflugi fækkaði um 15% milli ára vegna færri verkefna en á sama tíma í fyrra og viðhalds flugvéla. Fraktflutningar jukust um 5%. Seldar gistinætur hjá hótelum félagsins jukust um 6% og var herbergjanýting 81,3% samanborið við 80,1% í júní 2018. Aukning var á öllum hótelum félagsins í Reykjavík.