*

mánudagur, 27. september 2021
Erlent 3. september 2021 08:31

Farþegafjöldi Play undir markmiði

Sætanýting Play þarf að ná 90% út árið ef markmið félagsins um farþegafjölda í ár á að nást.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Play tilkynnti á þriðjudaginn að 17.300 farþegar flugu með félaginu í ágúst og sætanýting nam 46,4%, samanborið við 41,7% í júlí. Alls flugu því um 27.200 manns með Play á síðustu tveimur mánuðum. Sætanýting félagsins þarf að tvöfaldast, þ.e. félagið þarf að selja níu af hverjum tíu sætum, ef það ætlar að ná markmiði um fjölda farþega sem sett var fram í fjárfestakynningu um miðjan júní, samkvæmt frétt Túrista.

Í kynningunni, sem var birt fyrir hlutafjárútboð félagsins í júní, mátti finna sviðsmynd á rekstrinum þar sem félagið áætlaði að fjöldi seldra sæta yrði um 143 þúsund í ár. Markmiðið miðast því við að sætanýtingin yrði 72% í ár en myndi aukast í 85% á næsta ári og vera komið í 89% árið 2025.

Til þess að Play nái þessu markmiði þurfa 115 þúsund farþegar að fljúga með félaginu til áramóta. Samkvæmt talning Túrista nemur framboð félagins út árið rétt um 127 þúsund sæti. Því þarf sætanýtingin að vera í kringum 90% til þess að sviðsmyndin haldi í ár.  

Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri Play, segir að markmiðið sem kom fram í kynningunni hafi einungis verið sviðsmynd. Flugfélagið hafi síðan þá dregið úr fyrirhuguðu framboði vegna stöðunnar í faraldrinum.

„Við stöndum ekki og föllum með skammtímasveiflum en sjáum hins vegar að eftirspurn er að aukast hressilega og lítum björtum augum til framtíðar,” er haft eftir Nadine Guðrúnu í frétt Túrista

Í tilkynningu Play samhliða árshlutauppgjöri sem birtist á þriðjudaginn sagðist félagið að fyrsti heili mánuður í flugrekstri hafi verið vel heppnaður en tíðar breytingar á ferðatakmörkunum af hálfu stjórnvalda og ný bylgja kórónuveirunnar hafði þó óneitanlega neikvæð áhrif á eftirspurn meðal íslenskra farþega. Félagið væntir þess að sætanýting í september aukist enn frekar.

Sviðsmyndin af rekstri Play sem birtist í fjárfestakynningu félagsins dagsettri 14. júní 2021.

Stikkorð: Play