Árið 2017 var metár hjá Primera Air en met voru slegin á fjölmörgum sviðum í rekstri félagsins að því er kemur fram í fréttatilkynningu.  Tekjuaukning milli áranna 2016 og 2017 reyndist tæp 14% og söluaukning á vefsíðu fyrirtækisins jókst um 125,8% milli ára.  Farþegafjöldinn jókst einnig verulega, eða um 22,5%, og fór yfir eina milljón á árinu. Heildarfarþegafjöldi hjá Primera Air reyndist þegar upp var staðið vera 1.017.657 farþegar en sætanýting var um 85%.

Þá hyggst Primera Air opna nýjar starfsstöðvar í Birmingham (BHX), Stansted í London (STN) og Charles de Gaulle í París (CDG) til að hefja flug til New York, Boston og Toronto strax í apríl, ásamt nýjum áætlunarleiðum frá Bretlandi til Malaga, Palma de Mallorca, Alicante, Barcelona og Chania.

Á næstu tveimur árum áætlar Primera Air að auka umfang sitt á núverandi stöðum og bæta við nýjum starfsstöðvum og áætlunarflugum yfir Atlantshafið þar sem flugfélagið hefur pantað tuttugu nýjar Boeing MAX9-ER þotur.