*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Innlent 6. júlí 2020 16:48

Farþegafjöldi sexfaldast milli mánaða

Farþegafjöldi Icelandair var rúmlega 18 þúsund í júní, samanborið við 553 þúsund á sama tíma í fyrra, en í maí var fjöldinn um þrjú þúsund.

Ritstjórn
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Haraldur Guðjónsson

Heildarfjöldi farþega hjá Icelandair í júní var rúmlega 18 þúsund samanborið við um 553 þúsund á sama tíma í fyrra, sem er um 97% samdráttur á milli ára. Þetta er þó sexföldun frá því í maí þegar heildarfjöldi farþega var aðeins um þrjú þúsund. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

Heildarframboð minnkaði um 96% á milli ára. Fjöldi farþega hjá Air Iceland Connect var um 12 þúsund í júnímánuði og fækkaði um 52% á milli ára. Framboð minnkaði um 63%.

Seldir blokktímar í leiguflugstarfsemi félagsins drógust saman um 66% á milli ára í júní. Flutningastarfsemi félagsins gekk vel í júnímánuði og drógust fraktflutningar aðeins saman um 9% á milli ára. Samdrætti í farþegaflugi hefur verið mætt með auknum ferðum fraktvéla félagsins bæði til Bandaríkjanna og Evrópu.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group:

„Við hófum áætlunarflug til nokkurra lykiláfangastaða okkar á ný 15. júní síðastliðinn þegar markaðir hófu að opnast fyrir farþegaflug eftir langt tímabil yfirgripsmikilla ferðatakmarkana. Við förum þó hægt af stað, eins og fram kemur í flutningatölum júnímánaðar, þó fjöldi farþega hafi aukist nokkuð á milli mánaða. Flutningastarfsemi okkar gekk vel og flugum við til að mynda tvisvar á dag flesta daga vikunnar til Bandaríkjanna og Evrópu með íslenskar sjávarafurðir.

Þá héldum við áfram í sérverkefnum í frakt- og leiguflugi og má þar til dæmis nefna yfir 20 fraktflug með lækninga- og hjúkrunarvörur frá Kína til Evrópu og Bandaríkjanna fyrir aðila í heilbrigðisþjónustu. Við útvíkkuðum flugáætlun okkar í byrjun júlí og þrátt fyrir töluverða óvissu erum við tilbúin að bregðast hratt við um leið og ástandið batnar og eftirspurn tekur við sér.“