Eftir aukin umsvif í ferðaþjónustunni í byrjun sumars hefur ný Covid-bylgja og aðgerðir stjórnvalda sem fylgdu leitt til verri horfa í ferðaþjónustunni. Í byrjun sumars spáðu greiningardeildir bankanna um 700-800 þúsund ferðamönnum til Ísland í ár og Seðlabankinn spáði í nýjasta hefti Peningamála sem kom út í síðasta mánuði að fjöldinn yrði um 680 þúsund.

Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, segir þó að miðað við skilaboð frá flugfélögum í dag sé útlit fyrir að fjöldi ferðamanna verði á bilinu 550-600 þúsund í ár og útilokar ekki að spáin verði lækkuð meira ef flugfélögin fækka flugferðum frekar. Hann bætir við að Isavia hafi um mitt sumar horft fram á að fjöldinn gæti náð 660 þúsundum en nú sé staðan önnur.

„Sumarið byrjaði rosalega vel og júlí var töluvert yfir okkar spám. Jákvætt orðspor Íslands vegna ráðstafana í faraldrinum, sem og að þjóðin er nær fullbólusett, gaf okkur mikinn meðbyr inn í sumarið. Við sáum það mjög greinilega, bæði í því hversu mörg erlend flugfélög hófu flug hingað með stuttum fyrirvara og hvað leiðakerfi Icelandair þandist hratt út,“ segir Guðmundur Daði.

Í hættu að missa af tækifærunum

Ágústmánuður var hins vegar undir væntingum, en Guðmundur Daði segir að breyttar reglur á landamærum í byrjun mánaðarins hafi strax dregið úr eftirspurn. Hann hefur áhyggjur af því að ef kröfur til ferðamanna hér á landi verði áfram mjög ríkar muni það bíta verulega í eftirspurnina og ferðavilja til Íslands.

„Við sáum í sumar tækifærin sem Ísland hefur sem áfangastaður. Við erum í algjöru dauðafæri og finnum fyrir áhuga hjá viðskiptavinum. Við höfum því tækifæri til að hraða endurreisn efnahagslífsins en gætum verið að missa þetta þetta úr höndunum vegna harðra aðgerða,“ segir Guðmundur Daði.

Aðgerðir stjórnvalda á landamærum gangi lengra en hjá nágrannaþjóðum og þá sérstaklega fyrir bólusetta ferðamenn. Hann kallar eftir fyrirsjáanleika á landamærum fram á næsta ár svo að flugfélög geti tekið skýrari ákvarðanir fyrir veturinn.

Nánar er rætt við Guðmund Daða í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .