Íslenska flugfélagið Wow air flutti 166.647 farþega til og frá landinu í febrúar eða um 170% fleiri farþegar en í febrúar í fyrra. Sætanýting Wow air var 87% en það er sama sætinýting og var í febrúar í fyrra. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Wow air.

Framboðnum sætiskílómetrum fjölgaði um 239% í febrúar frá því á sama tíma í fyrra. Frá áramótum hefur Wow air flutt 337 þúsund farþega en það er 198% aukning farþega frá sama tímabili frá árinu áður.

Flugfélagið kemur til með að fljúga tvisvar á dag til Lundúna, Parísar og Amsterdam, frá lok mars. Félagið hóf jafnframt áætlunarflug til New York í lok nóvember á síðasta ári og eftirfarandi áfangastaðir munu svo bætast í leiðakerfið; Miami í apríl og Pittsburgh í júlí. Einnig mun Wow air fljúga daglega til Los Angeles og San Fransisco.