Wow air flutti 175.222 farþega til og frá landinu í október og jókst því farþegafjöldi flugfélagsins um 139% frá sama tíma í fyrra. Þá var sætanýting WOW air 86% en var 88% í október á síðasta ári. Sætanýting helst svipuð þrátt fyrir 151% aukningu á sætaframboði milli ára. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Wow air.

Aukning á framboðnum sætakílómetrum hjá WOW air til og frá Norður Ameríku var 354% á milli ára en á sama tíma jókst ferðamannastraumur þaðan til Íslands um 127%. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu er aukning ferðamanna frá N-Ameríku milli ára umtalsvert meiri en frá öðrum skilgreindum markaðssvæðum.

Haft er eftir Skúla Mogensen, stofnanda og forstjóra Wow air, í tilkynningunni, að þau í Wow air séu mjög ánægð með að markaðsaðgerir flugfélagsins í Norður Ameríku séu að skila sér og birtast í þessum tölum. „Með auknu framboði á ódýrum sætum til Íslands og áfram til Evrópu eru sífellt fleiri að sjá sér fært að heimsækja okkur,“ segir Skúli.