Wow air flutti 170 þúsund farþega til og frá landinu í janúar eða um 237% fleiri farþega en í janúar í fyrra. Þá var sætanýting Wow air 85% en var 82% í janúar á síðasta ári. Er þetta aukning um þrjú prósentustig þrátt fyrir mikla framboðsaukningu. Sætanýting Wow air jókst milli ára þrátt fyrir 230% aukningu á sætaframboði í janúar. Þetta segir í tilkynningu frá Wow air.

Framboðnum sætiskílómetrum fjölgaði um 284% í janúar frá því á sama tíma í fyrra. Hlutdeild WOW air í heildarfjölda farþega um Keflavíkurflugvöll í janúar 2017 var 35% en var 18% í janúar í fyrra.

„Það er mjög ánægjulegt að sjá hvað hefur tekist vel til að halda nýtingunni góðri einnig yfir vetrarmánuðina þrátt fyrir gríðarlega aukningu ekki síst inn á Bandaríkjamarkað með tilkomu Los Angeles,  San Francisco og núna nýlega New York.  Samkeppnin yfir Atlantshafið hefur aukist mjög mikið og ljóst að neytendur munu njóta góðs af hagstæðum fargjöldum næstu misserin.  Við ætlum svo sannarlega að halda áfram að bæta við nýjum spennandi áfangastöðum og lækka flugfargjöld öllum til hagsbóta,“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air við tilefnið.

Wow air mun frá lok mars fljúga tvisvar á dag til London, Parísar og Amsterdam. Félagið hóf áætlunarflug til New York í lok nóvember á síðasta ári og munu svo bætast við leiðarkerfið; Miami í apríl og Pittsburgh í júní. WOW air mun einnig fljúga daglega til Los Angeles og San Francisco. Í ár mun félagið fljúga til níu áfangastaða í Norður-Ameríku og er flogið allan ársins hring.