Í apríl var farþegafjöldi Icelandair 318 þúsund og jókst um 19%. Framboð var aukið um 8%. Sætanýting var 83,7% samanborið við 77,2% í apríl í fyrra. Ferðamannamarkaðurinn til Íslands var stærsti markaður félagsins í mars með 40% af heildarfarþegafjölda. Icelandair greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Farþegum á þessum markaði fjölgaði um 39 þúsund á milli ára eða 44%. Farþegum fjölgaði einnig mikið á heimamarkaðinum frá Íslandi eða um 24 þúsund sem samsvarar 56% aukningu á milli ára. Fjöldi fluttra farþega á N-Atlantshafinu dróst aftur á móti saman á milli ára um tæp 13 þúsund eða 9%. Komustundvísi í leiðakerfi félagsins í apríl nam 67% samanborið við 76% í apríl á síðasta ári. Skýrist það af mikilli röskun sem varð á flugi vegna slæms veðurs á Íslandi í tvo daga.

Farþegar Air Iceland Connect voru 22 þúsund og fækkaði um 20% á milli ára. Skýrist það aðallega af flugi til Aberdeen og Belfast sem var lagt niður í maí á síðasta ári.  Sætanýting nam 69,0% og jókst um 8,4 prósentustig á milli ára. Seldum blokktímum í leiguflugi fækkaði um 26% milli ára vegna færri verkefna en á sama tíma fyrir ári og viðhalds flugvéla. Fraktflutningar jukust um 18%. Seldar gistinætur hjá hótelum félagsins jukust um 11%. Herbergjanýting var 69,2% samanborið við 70,7% í apríl 2018.