Framboð Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, borgaði fólki fyrir að koma fram í myndskeiði sem framboðið birti. Uppátækið virðist hafa átt að auka álit almennings á forsætisráðherranum en kosningar fara fram í byrjun september.

Það vakti athygli um helgina þegar spurðist út að Jens Stoltenberg hefði ákveðið að dulbúa sig sem leigubílstjóra og keyrt nokkra farþega um Osló. Samkvæmt upplýsingum frá framboði hans, sem birtust í norskum fjölmiðlum, gerði hann þetta til þess að ná betra sambandi við kjósendur. Þannig gæti hann betur skynjað hvað kjósendur væru að hugsa. Í gær birtist svo myndskeið á YouTube þar sem Stoltenberg var að undirbúa sig undir aksturinn og einnig var sýnt frá nokkrum samtölum við farþegana.

Nú hefur verið upplýst að í það minnsta fimm af fjórtán farþegum fengu borgað 10 þúsund íslenskar krónur fyrir að birtast í myndskeiði fyrir Verkamannaflokkinn.

„Þetta voru fimm venjulegar manneskjur sem voru spurðar að því hvort þeir vildu taka þátt í myndskeiði á vegum Verkamannaflokksins. Þau fengu engar aðrar upplýsingar, aðrar en þær að leigubíll myndi sækja þau,“ sagði Pia Gulbrandsen, talsmaður framboðsins við fjölmiðla.

Þetta auglýsingahneyksli Stoltenbergs er nú orðið að alheimsfrétt. Til dæmis má lesa um það á vef BBC.