Egypskri farþegaþotu var rænt í morgun og beint til Kýpur. Um borð í vél­inni er sagður vera 81 farþegi og sjö áhafnarmeðlimir.

Flugræninginn hótaði að sprengja sprengjubelti sem hann sagðist vera klæddur í og náði þannig valdi á vélinni. Vélinni var lent á Larnaca flugvelli á Kýpur á sjöunda tímanum í morgun.

Fregnir eru ennþá að berast en svo virðist sem að hann hafi leyft konum og börnum að yfirgefa flugvélina. Samkvæmt Twitter-síðu Egyptair þá leiddu samningaviðræður við flugræningjann fyrst til þess að allir farþegar fengu að yfirgefa flugvélina að undanskildum fjórum útlendingum og áhöfn vélarinnar. Núna hefur verið greint frá því að allir farþegar fái að yfirgefa vélina og að bréf frá flugræningjanum verði afhent fyrrverandi eiginkonu hans, en hún er frá Kýpur.