Farþegaflug eru mjög takmörkuð þessa dagana vegna Covid-19 veirunnar. Ýmis flugfélög hafa tekið til ráða sinna og hafið tímabundin fraktflug með farþegaflugvélum. New York Times greinir frá

Virgin Airlines flaug níu sinnum án farþega í apríl síðastliðnum en flugfélagið hafði aldrei notað farþegavélar eingöngu fyrir fraktflutninga fyrir mars í ár. „Fraktflug eru að halda flugvélum, sem annars væru kyrrsettar, í loftinu sem gefur okkur aukna trú á að við komumst úr þessu ástandi,“ hafði NYT eftir Dominic Kennedy, yfirmanni fraktflutningastarfsemi Virgin.

Þrjú stærstu flugfélög Bandaríkjanna hófu flug eingöngu ætluð til fraktflutninga í mars. American Airlines hefur ekki flogið slík flug í meira en þrjá áratugi en áætlar að fljúga um 140 fraktflug á hverri viku í núverandi ástandi.

Þýska flugfélagið Lufthansa, sem lengi hefur starfrækt aðskilda fraktflutninga starfsemi, hefur umbreytt Airbus A330 farþegavélum svo hægt sé að nýta farþegarýmið fyrir vöruflutninga. Lufthansa flaug nokkrum sinnum í síðasta mánuði með lækninga- og hjúkrunarvörur frá Kína til Frankfurt.

Sömu sögu er að segja um Icelandair sem gerði samning við flutningamiðlunarfyrirtækið DB Schenker í apríl síðastliðnum um að minnsta kosti 45 fraktflug á milli Shanghæ og Munchen . Sérfræðingar í tæknideild Icelandair þurftu að endurhanna farþegarými vélanna til þess að flytja frakt í stað farþega, en þetta sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, þegar samningurinn var tilkynntur.

Heimsmeðalverð eins kílógramms af vöruflutningum með flugi var um 3,69 dollara eða 520 krónur í apríl síðastliðnum sem er um 65% hækkun frá mars samkvæmt WorldACD, gagnaveitu sem safnar fraktgögnum frá 70 flugfélögum. Það er hæsta skráða meðalverð fyrir fraktflutninga og mesta mánaðarleg aukning frá því að gagnaveitan fór að safna gögnum í janúar 2008.