Farþegum sem koma á Akureyrarflugvöll fjölgaði um 23% í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra, en í mánuðinum hófst beint flug þaðan til Keflavíkurflugvallar.

Voru þeir 18.500 í heildina sem er fleiri en í nokkrum sumarmánuðum í fyrra að því er fram kemur í viðtali RÚV við Kristján Sigurjónsson, ritstjóra Túrista.is.

Ekki lágu fyrir upplýsingar um hlutfall ferðamanna sem eru að nýta sér flugið til að fara beint til Akureyrar, eða Norðlendinga sem nýta flugið til að stytta ferðatímann úr landi.

Býst við minni ásókn í sumar

„Það hefur verið nokkuð sérstakt að á Keflavíkurflugvelli hafi ekki verið neitt innanlandsflug í boði, sem er verulegur hluti af umferð um alla stóru flugvellina annars staðar á Norðurlöndum,“ sagði Kristján.

„Annars staðar í Evrópu er innanlandsflug og millilandaflug tengt saman. En það hefur ekki verið í boði á Keflavíkurflugvelli. Fólk hefur þurft að keyra inn til Reykjavíkur og fara þaðan í innanlandsflug.“

Kristján býst við að eitthvað dragi úr ásókn í innanlandsflugið frá Keflavík yfir sumartímann þegar fleiri vilji aka um landið, en innanlandsflugið er hlutfallslega dýrara en millilandaflugið. Á móti komi að það spari tíma og kostnað vegna aksturs og bílastæða við Keflavíkurflugvöll.