Heildarfjöldi farþega í innanlands- og millilandaflugi Icelandair í nóvember síðastliðnum var um 170 þúsund, samanborið við um 13 þúsund farþega í nóvember 2020 og um 283 þúsund í nóvember 2019, síðasta heila rekstrarár fyrir heimsfaraldurinn. Heildarframboð í nóvembermánuði var um 63% af framboði sama mánaðar ársins 2019. Þetta er meðal þess sem kemur fram í mánaðarlegum flutningatölum fyrir nóvembermánuð sem Icelandair birti í Kauphöll í gærkvöldi .

Heildar farþegafjöldi félagsins í innanlands- og millilandaflugi á árinu er nú kominn yfir 1,3 milljónir og hefur fjölgað um rétt tæplega 50% á milli ára.

Farþegar í millilandaflugi voru um 151.000 samanborið við 7.000 í nóvember 2020. Farþegar til Íslands voru um 80.000 og frá landinu voru um 33.000. Tengifarþegar voru um 38.000 en hlutfall þeirra hefur nú aukist um tæp 80% á milli ára það sem af er ári. Stundvísi í millilandaflugi var um 75%.

Sætanýting í millilandaflugi var 71% samanborið við 32% í nóvember 2020 og 79% í nóvember 2019. „Bandarísk landamæri voru lokuð evrópskum ferðamönnum fyrstu viku nóvembermánaðar en þegar opnað var fyrir aðgengi bólusettra ferðamanna jókst sætanýtingin til muna,“ segir í tilkynningu flugfélagsins.

Farþegar í innanlandsflugi voru um 19.000 samanborið við 6.000 í nóvember 2020 og 21.000 í nóvember 2019. Farþegafjöldi í innanlandsflugi er þannig orðinn nánast sambærilegur við það sem hann var fyrir faraldur. Það sem af er ári hafa 78% fleiri farþegar flogið innanlands en á sama tímabili árið 2020.

Fjöldi seldra blokktíma í leiguflugi jókst um 96% samanborið við nóvember 2020 en eins og áður hefur verið greint frá sinnir Loftleiðir Icelandic nú meðal annars verkefnum á Suðurskautslandinu og nýtir til þess vélar og áhafnir Icelandair. Fraktflutningar jukust um 26% á milli ára í nóvember og hafa það sem af er ári aukist um 24% miðað við sama tíma í fyrra.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

„Það er ánægjulegt að sjá þann vöxt sem hefur orðið í flugáætlun og starfsemi Icelandair Group á árinu. Millilandaflug hefur aukist jafnt og þétt og innanlandsflugið er nú á svipuðum stað og fyrir faraldurinn. Þá höfum við séð töluverða aukningu í fraktflutningum og nú undir lok árs erum við að sinna spennandi verkefnum í leiguflugi.

Núverandi staða faraldursins hefur haft áhrif á bókanir til skemmri tíma. Bókunarstaða er þó almennt sterk og við munum áfram nýta þann sveigjanleika sem við höfum til að laga okkur að aðstæðum hverju sinni. Starfsfólk félagsins hefur staðið sig með eindæmum vel, hvort sem litið er til þess að sækja ný verkefni eða sinna fyrirtaks þjónustu við viðskiptavini á tímum þar sem ferðalög hafa verið flókin.“