*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 19. mars 2015 09:01

Farþegum fjölgaði langmest í Leifsstöð

Flugstöð Leifs Eiríkssonar klifrar hratt upp listann yfir stærstu flughafnir Norðurlandanna.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Farþegum á Keflavíkurflugvelli hefur fjölgað um 15 til 20% á milli ára síðustu ár og töldu þeir 3,9 milljónir í fyrra. Túristi greinir frá því að þessi hraði vöxtur hafi skotið Flugstöð Leifs Eiríkssonar fram úr flughöfnunum í Billund og Bromma í Stokkhólmi á listanum yfir stærstu flughafnir Norðurlanda síðustu ár. 

Aðalflugvellirnir í Kaupmannahöfn, Ósló og Stokkhólmi eru þeir langstærstu á Norðurlöndum, en umferð um þá jókst einnig nokkuð í fyrra. Aukningin milli ára nam 6,5% á Kaupmannahafnarflugvelli, 4,8% á Óslóarflugvelli og 9% á Arlandaflugvelli. Það er þó ekkert í líkingu við aukninguna í Keflavík sem nam 20,5%. Nú situr flugvöllur Íslendinga í níunda sæti listans yfir stærstu flughafnirNorðurlandanna.

Forsvarsmenn Isavia áætla að 4,5 milljónir farþega fari um Keflavíkurflugvöll í ár og ef þær áætlanir ganga eftir gæti sá íslenski velt flugvellinum í Þrándheimi úr sessi sem áttunda stærsta flughöfn Norðurlanda. Í fyrra fóru um 4,4 milljónir farþega til og frá norska flugvellinum en er álíka mikið og árið á undan.