Icelandair flutti í október um 213 þúsund farþega í millilandaflugi samkvæmt nýjustu flutningatölum flugfélagsins og voru þeir 15% fleiri en í október í fyrra. Þá nam framboðsaukingin í flugi á milli ára 12% og sætanýting var 81,4% samanborið við 78,1% á sama tíma í fyrra.

Farþegum í innanlands- og Grænlandsflugi fækkaði um 10% á milli ára en þeir voru 24 þúsund í október. Að sama skapi dróst framboð félagsins saman um 13% á milli ára á þeim markaði. Sætanýting var 73,3% og hækkaði um 1,9% á milli ára.

Framboðnar gistinætur í hótelum Icelandair Group stóðu nánast í stað á milli ára en þær voru 22.909. Seldum gistnóttum fjölgaði um 16% á milli ára og voru þær 16.541 en herbergjanýting 72,2%.