Icelandair Group tapaði 14,6 milljónum bandaríkjadala á fyrsta ársfjórðungi 2015. Er það öllu betri afkoma en á sama tíma fyrir ári síðan, þegar samstæðan tapaði 26,7 milljónum bandaríkjadala.

Farþegatekjur jukust nokkuð á milli fyrstu ársfjórðunga 2015 og 2014. Þannig numu þær 128,4 milljónum bandaríkjadala í ár en voru 121,6 milljónir  2014. Aftur á móti drógust leigutekjur af flugvélum saman úr 22 milljónum dala niður í 20,2 milljónir og aðrar tekjur drógust talsvert saman, úr 47,7 milljónum dala í 37,6 milljónir dala.

Rekstrarkostnaður félagsins var aftur á móti töluvert lægri. Þannig lækkaði launakostnaður úr 60,9 milljónum dala í 57 milljónir, kostnaður vegna flugvéla úr 89,4 milljónum í 81,9 milljónir og annar rekstrarkostnaður úr 54,3 milljónum dala í 49,4 milljónir.

Gengisáhrif vega út áhrif af lækkuðu eldsneytisverði

Helstu skýringar á bættri afkomu segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, að séu „mikil aukning farþega í millilandaflugi og góð nýting bæði í fluginu og á hótelum félagsins, auk þess sem lægra eldsneytisverð hefur talsverð áhrif á samanburð við fyrra ár."

„Framboðsaukning á tímabilinu var 12% en á sama tíma jókst fjöldi farþega um 19%. Sætanýting var 79,2% og hefur aldrei verið hærri á fyrsta ársfjórðungi. Herbergjanýting á hótelum félagsins var einnig mjög góð eða 75,2% samanborið við 67,3% á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs. Icelandair Group hefur verið í fararbroddi að byggja upp ferðaþjónustu á Íslandi utan háannar og sýna þessar nýtingatölur frá hótelunum árangurinn af starfi okkar. Rekstur annarrar starfsemi samstæðunnar gekk einnig vel á fjórðungnum," bætir Björgólfur við.

Björgólfur segir að gengisáhrif hafi neikvæð áhrif á EBITDA spá félagsins, en á móti kemur að eldsneytisverð hefur verið lægra en spár gerðu ráð fyrir. „Að teknu tilliti til þessa er EBITDA spá fyrir árið í heild óbreytt, þrátt fyrir að afkoman hafi verið umfram væntingar á fyrsta fjórðungi.“