Icelandair flutti 131 þúsund farþega í millilandaflugi í nóvember síðastliðnum og fjölgaði þeim um 25% frá sama tíma í fyrra. Framboðsaukning  var 31% á milli ára. Sætanýting nam 75,9% samanborið við 76,9% í nóvember í fyrra, samkvæmt flutningatölum flugfélagsins.

Farþegar í innanlands- og Grænlandsflugi voru tæplega 26 þúsund í nóvember sem er lækkun um 4% á milli ára.  Sætanýting nam 72,4% og jókst um 5,6 prósentustig frá í fyrra. Seldum blokktímum í leiguflugi fækkaði hins vegar um 12% frá nóvember í fyrra  þar sem fraktvélar í leiguflugsverkefnum voru einni færri en í fyrra. Fraktflutningar jukust um 6% á milli ára. Framboð á gistinóttum hjá hótelum félagsins jókst um 24% frá nóvember á síðasta ári. Herbergjanýting var 61,8% og var 5,9 prósentustigum hærri en í nóvember í fyrra.