Play flutti 36.669 farþega í apríl sem er 55% aukning frá marsmánuði þegar flugfélagið flutti 23.677 farþega. Sætanýting var 72,4% samanborið við 66,9% í mars. Play segir að bókunarstaða félagsins hafi aldrei verið eins sterk og gert ráð fyrir að sú þróun haldi áfram með tilkomu tengiflugs yfir Atlantshafið.

„Sætanýting jókst nokkuð mikið í apríl þrátt fyrir að fyrsta flug Play til Bandaríkjanna hafi verið undir lok mánaðar. Þetta er til marks um meiri eftirspurn á öllum mörkuðum Play í apríl,“ segir í tilkynningu flugfélagsins til Kauphallarinnar.

Þann 20. apríl var fyrsta áætlunarferð Play vestur um haf til Bandaríkjanna. Áfangastaðurinn var Baltimore/Washington International-flugvöllurinn þangað sem flogið er daglega. „Nú er hafinn næsti kafli í sögu félagsins með farþegaflutningum yfir Atlantshafið sem stækkar markaðssvæði félagsins til muna.“ Einnig bættist Dublin við leiðakerfi Play í apríl.

Í maí bætast átta nýir áfangastaðir við leiðakerfi flugfélagsins; Lissabon í Portúgal, Stafangur og Þrándheimur í Noregi, Malaga á Spáni, Prag í Tékklandi, Gautaborg í Svíþjóð, Boston í Bandaríkjunum og Brussel í Belgíu. Play verður því með 25 áfangastaði beggja vegna Atlantshafsins árið 2022.

Birgir Jónsson, forstjóri Play:

„Á síðustu vikum og mánuðum höfum við greinilega fundið fyrir aukinni eftirspurn og frábærum viðtökum vegna nýrra áfangastaða. Eftir krefjandi vetur er gleðilegt að sjá aukna sætanýtingu og vaxandi farþegafjölda verða að veruleika. Við erum sannfærð um að þessi þróun komi til með að halda áfram enda er bókunarstaðan til framtíðar sterk, sérstaklega eftir að miðasala til Bandaríkjanna hófst en með því að flytja farþega yfir Atlantshafið eykst nýting á helstu áfangastaði okkar í evrópskum borgum. PLAY teymið hefur unnið sleitulaust að því markmiði að koma tengifluginu á koppinn og með nákvæmni og fagmennsku hefur okkur tekist að ná því markmiði.“