Farþegum Icelandair hélt áfram að fjölga í desember og sætaframboð jókst sömuleiðis, þrátt fyrir áhrif af völdum ómíkron afbrigðisins. Heildarfjöldi farþega í innanlands- og millilandaflugi var 1,46 milljón árið 2021 sem er 64% aukning frá árinu 2020. Þá fjölgaði farþegum til Íslands um 54% á milli ára og farþegum í innanlandsflugi um tæp 80%. Þetta er meðal þess sem kemur fram í mánaðarlegum flutningatölum fyrir desembermánuð sem Icelandair birti í Kauphöll í dag.

Mikil fjölgun tengifarþega

Heildarfjöldi farþega í innanlands- og millilandaflugi í desember síðastliðnum var um 169.000 samanborið við um 25.000 farþega í desember 2020 og 285.000 farþega í desember 2019. Heildarframboð í desembermánuði var um 65% af framboði sama mánaðar árið 2019.

Farþegar í millilandaflugi voru um 149.000 samanborið við um 14.000 í desember 2020. Farþegar til Íslands voru um 60.000 og farþegar frá landinu voru um 35.000. Tengifarþegar voru um 55.000 og hafa ekki verið fleiri síðan í febrúar 2020. Stundvísi í millilandaflugi var um 75%.

Sætanýting í millilandaflugi var 71%, samanborið við 40% í desember 2020 og 81% í desember 2019.

Innanlandsflug gengur vel og fraktflutningar aukast

Farþegar í innanlandsflugi voru um 19.000 samanborið við um 10.000 í desember 2020 og 17.000 í desember 2019. Farþegafjöldi í innanlandsflugi er orðinn sambærilegur við það sem hann var fyrir faraldur og jókst heildarfjöldi farþega innanlands í desember um 88% á milli áranna 2020 og 2021.

Fjöldi seldra blokktíma í leiguflugi jókst um 15% samanborið við desember 2020 en eins og áður hefur verið greint hefur félagið aflað sér fjölda nýrra verkefna í leiguflugi, meðal annars á Suðurskautslandinu og milli Bandaríkjanna og Kúbu. Fraktflutningar jukust um 23% á milli ára í desember og hafa það sem af er ári aukist um 24% miðað við sama tíma í fyrra.

Heildarfjöldi farþega á árinu var tæplega 1,46 milljónir og fjölgaði sem fyrr segir um 64% á milli ára. Farþegar til Íslands voru um 670 þúsund á árinu 2021 og fjölgaði um 54% á milli ára og farþegar frá landinu voru tæplega 157 þúsund og fjölgaði um 33% á milli ára. Tengifarþegar yfir hafið voru 341 þúsund árinu sem er rúmlega þrefaldur sá fjöldi sem flaug í tengiflugi á árinu 2020.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

„Þrátt fyrir nokkur áhrif af ómíkron afbrigðinu náðum við góðum árangri í desember og var  flugframboðið 65% af framboði desembermánaðar árið 2019, síðasta heila rekstrarárs fyrir heimsfaraldur. Það er ánægjulegt að sjá að tengifarþegum heldur áfram að fjölga og voru þeir tæplega 37% af heildarfarþegafjölda í mánuðinum. Við höldum áfram að sjá mjög góðan árangur í fraktflutningum en þeir hafa skapað félaginu mikilvægar tekjur í gegnum heimsfaraldurinn. Innanlandsflugið hefur náð sér hraðar en alþjóðaflugið og farþegar voru fleiri í desember 2021 en í sama mánuði 2019. Þetta skýrist helst af því að breytingar á stöðu heimsfaraldursins hafa nokkuð minni áhrif á samgöngur innanlands en milli landa.

Bogi bætir við að félagið hafi dregið lítillega úr flugáætlun í janúar og febrúar til að aðlaga hana í samræmi við minnkandi eftirspurn vegna stöðu faraldursins og útbreiðslu ómíkrón afbrigðisins.

„Framboðið í janúar er nú um 60% af framboði ársins 2019 og í febrúar um 65%, sem er lítið eitt minna en gert var ráð fyrir áður en áhrifa ómíkron afbrigðisins fór að gæta. Bókunarstaða til lengri tíma er áfram sterk. Við höldum uppbyggingunni ótrauð áfram og munum sem fyrr nýta þann sveigjanleika sem við höfum í starfseminni til þess að laga okkur að aðstæðum hverju sinni með því að bæta í framboð eða draga úr eftir því sem við á."