„Allt útlit er fyrir að farþegar Strætó bs. í ár nemi tæpum 11,2 milljónum og spár gera ráð fyrir því að þeir verði tæpar 12 milljónir á næsta ári. Þetta er mikil fjölgun frá síðustu árum og þennan góða árangur má fyrst og fremst þakka bættri þjónustu, en ekki síst aukinni vitund um mikilvægi almenningssamgangna,“ segir Kolbeinn Óttarson Proppé upplýsingafulltrúi Strætó bs. í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.

„Sé tímabilið september til júlí borið saman á milli áranna 2011/12 og 2012/13 sést að farþegum hefur fjölgað um 13,14%, eða 1.070.780. Það er ótvíræður árangur og sýnir, svo ekki verður um villst, að hægt er að ná umtalsverðum árangri í að breyta ferðavenjum, ef vilji stendur til þess,“ segir í greininni.