Icelandair Group flutti um 144 þúsund farþega í millilandaflugi í nóvember. Þetta er 10% fleiri farþegar en í nóvember í fyrra, samkvæmt nýbirtum flutningatölum félagsins.

Framboðsaukning á milli ára nam 15% og sætanýting var 73,8% samanborið við 75,8% á sama tíma í fyrra. Farþegum fjölgaði mest á N-Atlantshafsmarkaðinum eða um 20,9%.

Þá kemur fram í flutningatölunum að farþegar í innanlandsflugi og Grænlandsflugi voru 21 þúsund í nóvember og fækkaði þeim um 17% á milli ára. Framboð félagsins var dregið saman um 17% samanborið við nóvember 2012. Sætanýting nam 71,4% og lækkaði um 1,0 prósentustig á milli ára. Seldum blokktímum í leiguflugi fækkaði um 2% á milli ára. Fraktflutningar jukust um 8% frá því á síðasta ári. Herbergjanýting á hótelum félagsins var 65,5% samanborið við 61,8% í nóvember í fyrra.