Icelandair flutti um 109 þúsund farþega í janúar sl., sem er 17% fjölgun á milli ára í janúarmánuði. Framboð á flugsætum jókst um 23% á milli ára í janúar. Sætanýtingin nam 69%, samanborið við 69,5% á sama tíma árið áður.

Þetta kemur fram í mánaðarlegum flutningstölum frá Icelandair Group.

Farþegafjöldi Icelandair jókst um 16% á milli ára í fyrra þegar félagið flutti 2.020 þúsund farþega. Þá jókst farþegafjöldinn um 18% á milli ára árið 2011 og 17% á milli ára árið 2010.

Farþegum Flugfélags Íslands, sem jafnframt er í eigu Icelandair Group, fækkaði um 7% á milli ára í janúar þegar félagið flutti um 21.500 farþega. Framboð félagsins dróst saman um 3% á milli ára í janúar og sætanýtingin dróst saman um 3% á milli ára. Farþegafjöldi Flugfélags Íslands lækkaði um 1% á milli ára í fyrra. Hið sama gildir um sætaframboðið en sætanýtingin jókst um tæpt prósent.

Nýting flugflota sem nýttur er til útleigu en er í eigu Icelandair Group dróst saman um tæp 13,5% á milli ára í janúar en dróst saman um 2,2% á milli ára í fyrra. Hér er átt við vélar í eigu samstæðunnar, meðal annars vélar sem leigðar eru út á vegum Lofteidir Icelandic. Seldum blokktímum fækkaði um 7% á milli ára nú í janúar.

Fraktflug á vegum samstæðunnar, sem að mestu fer fram á vegum Icelandair Cargo, jókst um 10% á milli ára í janúar en jókst um 15% á milli ára í fyrra.

Nýting hótelherbergja í eigu samstæðunnar jókst um 1% á milli ára í janúar en jókst um 3,5% á milli ára í fyrra. Framboð hótelherbergja jókst um 24% á milli ára í janúar og fjöldi seldra gistinátta jókst um 27% í janúar.